Innlent

Upp­sagnirnar á­fall fyrir allt sam­fé­lagið fyrir norðan

Sylvía Hall skrifar
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir uppsagnir PCC-Bakka vegna framleiðslustöðvunar þungt högg fyrir samfélagið fyrir norðan. Hann segir ákvörðun félagsins um að stöðva framleiðsluna tímabundið hafa keðjuverkandi áhrif í atvinnulífinu.

„Hugur manns er hjá starfsfólki og fjölskyldum þeirra sem sagt hefur verið upp á þessum vinnustað. Þetta er einn af okkar lykilvinnustöðum og lykilfyrirtæki í okkar atvinnulífi. Þetta eru auðvitað vonbrigði, að þessi staða sem er uppi í heiminum vegna Covid sé að hafa þessi þungu áhrif hér á okkar samfélag,“ segir Kristján Þór í samtali við fréttastofu.

Hann segir ljóst að framleiðslustöðvunin muni vara í einhverja mánuði en bindur vonir við það að markaðurinn nái sér á strik sem fyrst. Það sé mikilvægt að sem flestir geti fengið vinnu á ný, enda skipti PCC-Bakki miklu máli fyrir samfélagið.

„Það eru væntanlega þarna 80 til 90 manns sem eru búin að missa vinnuna við þetta. Svo eru fjölmörg fyrirtæki hér á svæðinu sem hafa stólað á að þjónusta PCC og svo önnur eitthvað minna. Þetta hefur mikil áhrif á allt atvinnulífið á svæðinu og samfélagið í heild,“ segir Kristján Þór.

„Það er mikilvægt að horfa til þess að þetta eru tímabundin áhrif og allir verða að leggjast á eitt með að komast í gegn. Á það einblínum við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×