Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, var að vonum ánægður með sigurinn á Selfossi, 1-0, í 1. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í dag.
Fylkiskonur voru afar óstyrkar í fyrri hálfleik en léku betur í þeim seinni. Eva Rut Ásþórsdóttir skoraði eina mark leiksins á 54. mínútu.
„Þetta voru frábær þrjú stig. Spennustigið var ansi hátt og við vorum ólíkar okkur í fyrri hálfleik. Ætli það skrifist ekki á mig,“ sagði Kjartan við Vísi eftir leik.
En hvað breyttist hjá Fylki í seinni hálfleik? „Við reyndum að róa okkur aðeins niður, spila meira og vinna betur saman,“ svaraði þjálfarinn.
Selfoss fékk dauðafæri eftir sjö mínútur þegar Tiffany McCarty slapp í gegn en fyrir utan það hélt Fylkisvörnin vel.
„Þegar spennustigið er hátt leggur maður kannski áherslu á að vera þéttur fyrir og gefa fá færi á sér. En Selfoss er með firnasterkt lið og á pottþétt eftir að blanda sér í titilbaráttuna. Við ætluðum að vinna þær og það tókst.“
Hin sextán ára Cecilía Rán Rúnarsdóttir átti afbragðs leik í marki Fylkis og var sérstaklega örugg í teignum en hún hirti hverja fyrirgjöfina á fætur annarri. Kjartan segir að það veiti Fylkisvörninni mikið öryggi.
„Alveg klárt. Þetta er eins og vera með góðan framherja sem þarf bara að spila á hann og hann snýr sér við og skorar. Það er gott að hafa Cecilía á hinum endanum og ég ætla að fullyrða að hún sé besti markvörðurinn í deildinni,“ sagði Kjartan að lokum.