Íslandsmótið í knattspyrnu byrjar með opnunarleik Pepsi Max deildar kvenna 12. júní. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.
Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað tengdu úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu. Í dag eru 8 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 12. júní næstkomandi.
Blikakonur þurftu að sætta sig við að missa Íslandsmeistaratitilinn yfir á Hlíðarenda síðasta sumar en þær enduðu samt í verðlaunasæti sjötta tímabilið í röð.
Frá og með árinu 2014 þá hefur kvennalið Breiðabliks alltaf endað í fyrsta eða öðru sæti deildarinnar.
Breiðabliksliðið hefur unnið tvo Íslandsmeistaratitla á þessum tíma (2015 og 2018) en hefur fengið silfurverðlaun á hinum fjórum tímabilunum. Næstflest verðlaun á þessum tíma hefur lið Stjarnan unnið eða þrjú talsins.
Íslandsmeistarar Valsmanna í fyrra voru að vinna sín fyrstu verðlaun í deildinni frá árinu 2013 og sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í áratug eða frá 2010.
Blikakonur eiga góða möguleika á að halda sér meðal tveggja efstu liðanna í sumar og takist það þá væri liðið aðeins einu sumri í verðlaunasæti frá því að jafna metið.
Fjögur lið hafa náð að enda í verðlaunasæti á átta tímabilum í röð þar af eru tvö eldri Blikalið, það fyrra frá 1976 til 1984 en það síðara frá 1990 til 1997.
KR og Valur eru aftur á móti síðustu liðin sem hafa náð í verðlaun á átta tímabilum í röð en Valskonur náðu því síðast allra liða frá 2004 til 2011.
- Tímabil í toppsætunum tveimur frá 2014:
- 6 - Breiðablik (2 gull, 4 silfur)
- 3 - Stjarnan (2 gull, 1 silfur)
- 2 - Þór/KA (1 gull, 1 silfur)
- 1 - Valur (1 gull)
- Flest verðlaunatímabil í röð í efstu deild kvenna
- 8 - Breiðablik (1976-1984)
- 8 - Breiðablik (1990-1997)
- 8 - KR (1996-2003)
- 8 - Valur (2004-2011)
- 6 - Breiðablik (2014-2019)
- 5 - FH (1972-1976)