Fáir fótboltamenn eru fljótari en Alphonso Davies, kanadíski landsliðsmaðurinn hjá Bayern München.
Bayern sigraði Borussia Dortmund, 0-1, í toppslag í þýsku úrvalsdeildinni í gær. Joshua Kimmich skoraði eina mark leiksins á 43. mínútu. Með sigrinum náðu Bæjarar sjö stiga forskoti á toppi deildarinnar.
Eftir sigurinn á Westfalen-vellinum í gær fór Thomas Müller í viðtal þar sem hann líkti Davies við teiknimyndapersónuna Road Runner.
Í teiknimyndunum Looney Tunes er Road Runner á stöðugum flótta undan sléttuúlfnum sísvanga Wile E. Coyote. Road Runner hefur alltaf betur í baráttu þeirra, enda frárri á fæti og ekki jafn seinheppinn og sléttuúlfurinn.
Davies átti nokkra rosalega spretti í leiknum gegn Dortmund í gær. Hann elti m.a. Erling Håland uppi er hann virtist vera sloppinn í gegnum vörn Bayern.
„Alphonso er gríðarlega kraftmikill leikmaður. Hann er ekki alltaf fullkomlega staðsettur en þegar andstæðingurinn heldur að hann hafi tíma kemur Road Runner hjá Bayern á fleygiferð - „meep meep“ - og vinnur boltann,“ sagði Müller og líkti eftir eina hljóðinu sem Road Runner gefur frá sér.
.@esmuellert_: When the opponent thinks he has time... then «meep meep meep» the FC Bayern roadrunner @AlphonsoDavies comes ahead. pic.twitter.com/Ox89gKWcrK
— Viaplay Fotball (@ViaplayFotball) May 26, 2020
Hinn nítján ára Davies hefur slegið í gegn í stöðu vinstri bakvarðar hjá Bayern í vetur. Hann hefur leikið 32 leiki á tímabilinu og skorað tvö mörk.
Davies fæddist í Gana en fluttist ásamt foreldrum sínum til Kanada þegar hann var fimm ára. Hann lék með Vancouver Whitecaps í MLS-deildinni í Bandaríkjunum áður en hann gekk í raðir Bayern í ársbyrjun 2019.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Davies leikið sautján landsleiki fyrir Kanada og skorað fimm mörk.