Tómas Ingi Tómasson og Reynir Leósson voru sérfræðingar Guðmundar Benediktssonar í fyrsta upphitunarþætti Pepsi-Max markanna á Stöð 2 Sport í vikunni. Þar fóru þeir yfir ýmis mál tengd Breiðabliki, FH og Fjölni sem voru þau lið sem voru til umfjöllunar
Allir voru þeir sammála um að Breiðablik gæti landað Íslandsmeistaratitlinum í sumar en umræðan fór í kjölfarið að snúast um nýstárlegan leikstíl Kópavogsliðsins þar sem markverðinum er ætlað að taka mikinn þátt í uppspilinu.
„Ég kannski spái þeim ekki Íslandsmeistaratitli en þeir eru nógu góðir til þess að vinna mótið. Ef þeir verða ekki með Anton Ara sem djúpan sweeper á miðjuboganum í of mörgum leikjum þá verða þeir Íslandsmeistarar. Það verður líklega bara gegn Gróttu í fyrstu umferð,“ sagði Reynir.
„Óskar er hugrakkur en hann er ekki galinn. Anton Ari verður ekki á miðjuboganum í Vesturbænum þegar þeir spila þar,“ sagði Reynir jafnframt.
„En á móti Gróttu. Verða þá markverðirnir báðir á miðjuboganum, sitt hvoru megin? Það verður skrýtinn leikur,“ sagði Tómas Ingi.
Umræðuna má sjá í heild í spilaranum neðst í fréttinni.