Sport

Launahæsta íþróttakona sögunnar 22 ára gömul

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Naomi Osaka
Naomi Osaka vísir/getty

Hin japanska Naomi Osaka er launahæsta íþróttakona heims um þessar mundir samkvæmt lista Forbes og raunar sú launahæsta í sögunni svo vitað sé eða frá því að Forbes fór að taka saman lista yfir launahæstu íþróttakonur heims árið 1990.

Osaka hefur verið að taka tennisheiminn yfir á undanförnum árum en hún er aðeins 22 ára gömul og skaust fyrst fram á sjónarsviðið árið 2014 þegar hún fékk sinn fyrsta atvinnumannasamning, mánuði áður en hún varð 16 ára gömul.

Samkvæmt listanum aflaði Osaka sér 37,4 milljónum Bandaríkjadala í laun eða rúmum 5 milljörðum íslenskra króna í verðlaunafé og fyrir auglýsingasamninga undanfarna 12 mánuði. Bætti hún þar með met annarar tennistjörnu, Mariu Sharapovu, frá árinu 2015.

Osaka gerði risasamning við íþróttavöruframleiðandann Nike á síðasta ári eftir að hafa áður verið á mála hjá Adidas.

Tenniskonur hafa eignað sér toppsætið á lista Forbes á liðnum áratugi en Sharapova var launahæst frá 2011-2015 og goðsögnin Serena Williams frá 2016-2019.

Mikill munur er á launum kynjanna en Osaka er í 29.sæti yfir launahæsta íþróttafólk heims. Á 100 manna lista eru aðeins tvær konur en hin er einmitt áðurnefnd Serena Williams. Listi Forbes yfir 100 launahæsta íþróttafólk heims verður birtur í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×