Sport

Fer á stefnumót með aðdáanda til styrktar heilbrigðisstarfsfólki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eugenie Bouchard komst í úrslit á Wimbledon 2014 en það hefur ekki gengið vel hjá henni á undanförnum árum.
Eugenie Bouchard komst í úrslit á Wimbledon 2014 en það hefur ekki gengið vel hjá henni á undanförnum árum. vísir/epa

Kanadíska tennisstjarnan Eugenie Bouchard fer óhefðbundna leiðir þegar kemur að því að styðja við bakið á heilbrigðisstarfsfólki í baráttunni við kórónuveiruna.

Hún hefur nefnilega samþykkt að fara á eins konar góðgerðarstefnumót með aðdáanda til að safna pening fyrir heilbrigðisstarfsfólk í Bandaríkjunum.

Í síðasta mánuði setti Bouchard inn færslu á Twitter þar sem hún sagði að lífið í sóttkví væri eflaust mun skemmtilegra ef hún ætti kærasta.

Fjölmargir aðdáendur Bouchards sáu sér þá leik á borði og buðu henni á stefnumót. Einn aðdáandi, Bob, var sérstaklega áhugasamur og bauð 400 pund fyrir stefnumót með Bouchard.

Íþróttafréttakonan Allie LaForce hvatti hann til að hækka boðið um 2000 pund og upphæðin færi í að kaupa mat handa heilbrigðisstarfsfólki.

Bob samþykkti þetta og ákvað að borga upphæðina eftir að Bouchard samþykkti að fara á stefnumót með honum.

Ekki nóg með það heldur ákvað Bob að bæta 800 pundum við upphæðina ef Bouchard myndi tala með breskum hreim á stefnumótinu. Hún samþykkti það með semingi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bouchard fer á stefnumót með heppnum aðdáanda. Hún gerði það einnig fyrir þremur árum þegar hún tapaði veðmáli við nemann John Goehrke um úrslit SuperBowl. Bouchard og Goehrke fóru saman á tvö stefnumót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×