Tveir einstaklingar með tengsl við hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík, greindust í gær með Covid-19. Smitum heldur áfram að fjölga á norðanverðum Vestfjörðum en í vikunni hefst skimun meðal íbúa fyrir Covid-19.
Þetta kemur fram á Facebook-síðu Lögreglunnar á Vestfjörðum þar sem fram kemur að alls hafi 74 greinst með Covid-19 frá 26. mars á norðanverðum Vestfjörðum.
Í færslu lögreglunnar er þó bent á að hafa þurfi í huga að umrædd talning byggi á lögheimilisskráningu viðkomandi, sem kann að dvelja utan umdæmisins. Þannig sé því til að mynda háttað með hið nýskráða tilvik í Vesturbyggð og hið sama á við um skráða tilvikið í Hólmavík/Ströndum.
Þó sé ljóst að smitin séu í vexti en eins og staðan er í dag er sjúkdómurinn bundinn við norðanverða Vestfirði. Engin virk smit eru í Reykhólahreppi, Hólmavík, Árnesi og Kaldrananeshreppi og hið sama á við um Vesturbyggð og Tálknafjörð.
Þannig er brýnt fyrir Vestfirðingum, sem og landsmönnum öllum, að halda sig heima finni þeir fyrir flensueinkennum og hafa samband við sína heilsugæslustöð.
Á Facebook-síðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir að í vikunni hefjist skimun meðal íbúa á norðanverðum Vestfjörðum fyrir Covid-19. Skimað verður í Bolungarvík og á Ísafirði. Þetta er samvinnuverkefni Íslenskrar erfðagreiningar og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða´.
Skimunin er fyrir einstaklinga sem ekki finna fyrir einkennum og er ókeypis. Skimað verður miðvikudaginn 15. apríl, fimmtudaginn 16. apríl og föstudaginn 17. apríl á fimm stöðum í Bolungarvík og á Ísafirði.