Meirihluti pólska þingsins hefur samþykkt að forsetakosningum í landinu verði ekki frestað vegna kórónuveirunnar og munu fara fram í næsta mánuði líkt og til stóð.
Þingmenn stjórnarflokksins Laga og réttlætis (PiS) tókst í annarri tilraun að ná því í gegnum þingið að forsetakosningar færu fram með póstkosningu.
BBC segir frá því að stjórnarandstaðan í landinu telji líklegt að ákvörðunin leiði til þess að líkurnar á endurkjöri forsetans Andrzej Duda aukist á ósanngjarnan máta.
Kórónuveiran hefur líkt og annars staðar í álfunni haft mikil áhrif á daglegt líf í Póllandi, en skráð smit í landinu eru nú 4.413 og eru 107 dauðsföll rakin til Covid-19.
Samkvæmt ákvörðun þingsins verða engir eiginlegir kjörstaðir og verða kjörseðlar sendir til kjósenda í pósti. Munu kjósendur svo skila útfylltum kjörseðlum í sérstaka kjörkassa sem verður dreift um landið.
Fyrri umferð forsetakosninganna í Póllandi fara fram 10. maí næstkomandi og sé þörf á annarri umferð færi hún fram 24. maí með sama fyrirkomulagi.
Síðustu árin hafa pólsk stjórnvöld ráðist í róttækar breytingar á dómskerfi landsins og starfsumhverfi fjölmiðla. Stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti styður Duda til áframhaldandi starfa í embætti forseta.