Harry Maguire, fyrirliði Manchester United, hefur lagt það til að leikmenn liðsins gefi 30% launa sinna til sjúkrahúsa í Manchester til að hjálpa þeim í baráttunni við kórónuveiruna.
Maguire sendi skilaboð þess efnis á samherja sína og viðtökurnar voru góðar samkvæmt Mirror.
Maguire kom með þessa tillögu eftir að hafa rætt við Ed Woodward, stjórnarformann United. Félagið er eitt það ríkasta í heimi og leikmenn liðsins þurfa ekki að taka á sig launalækkun vegna kórónuveirufaraldursins.
Þeir hafa hins vegar ákveðið að láta gott af sér leiða og leggja sín lóð á vogarskálarnar í baráttunni við þann vágest sem veiran er.
United gerði Maguire að dýrasta varnarmanni allra tíma þegar félagið keypti hann frá Leicester City á 80 milljónir punda í ágúst á síðasta ári. Hann var gerður að fyrirliða United þegar Ashley Young fór til Inter í janúar.