Pétur Magnússon hefur verið ráðinn forstjóri Reykjalundar, endurhæfingarmiðstöðvar SÍBS frá og með 1. júní. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SÍBS. Mikil ólga var á Reykjalundi í vetur eftir að Birgi Gunnarssyni forstjóra Reykjalundar til tólf ára var óvænt sagt upp störfum í október í fyrra.
Pétur er lyfjafræðingur að mennt og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á mannauðsstjórnun, að því er segir í tilkynningu.
„Pétur hefur farsæla reynslu af stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu, en hann hefur stýrt Hrafnistuheimilunum síðastliðin 12 ár. Á þeim árum hefur hann verið í fararbroddi í öldrunarþjónustu á landsvísu og leitt umfangsmikla uppbyggingu Hrafnistuheimilanna og átt frumkvæði að nýjungum og breytingum í þjónustu við aldraða. Hann hefur víðtæka reynslu af samskiptum við stjórnvöld og félagasamtök sem mun reynast mikilvægt fyrir framtíðarþróun endurhæfingarstarfsemi á Reykjalundi.“
Fjallað var mikið um málefni Reykjalundar í haust og vetur, sem einkenndust af ólgu og ósætti milli starfsfólks stofnunarinnar og stjórnar SÍBS. Málið komst fyrst í fjölmiðla eftir að Birgi Gunnarssyni, sem þá hafði verið forstjóri Reykjalundar í tólf ár, var óvænt sagt upp störfum af stjórn SÍBS. Þá var Magnúsi Ólasyni, framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi, einnig sagt skyndilega upp.
Í kjölfarið var Herdís Gunnarsdóttir ráðin forstjóri Reykjalundar og Ólafur Þór Ævarsson ráðinn framkvæmdastjóri lækninga. Herdís og Ólafur sögðu þó bæði störfum sínum lausum eftir skamman tíma í starfi.
Sérstök þriggja manna starfsstjórn Reykjalundar var þá sett á fót fyrir tilstilli heilbrigðisráðherra í nóvember. Starfsstjórninni var veitt fullt sjálfstæði og óskorað umboð til athafna við stjórnun Reykjalundar.