Íslenska CrossFit konan Sara Sigmundsdóttir hefur sjaldan litið betur út en hún gerir í dag en Sara er þegar búin að tryggja sér þrefaldan farseðil á heimsleikana í CrossFit á næsta ári.
Sara fylgdi eftir sigri í „The Open“ með því að vinna Filthy 15 á Írlandi á leiðina á Dubai CrossFit Championship sem hún vann síðan einnig.
Árangur Söru hefur vissulega vakið mikla athygli hér á Íslandi en einnig hefur CrossFit heimurinn dáðst af afrekum Suðurnesjakonunnar.
The Last Rep Podcast birti afar athyglisverða samantekt á Instagram síðu sinni þar sem farið var yfir svakalegan afrekalista Söru. Hér fyrir neðan má sjá þessa upptalningu á afrekum Söru í CrossFit.
„Eftir sigur Söru í Dubai CrossFit Championship þá tók ég mér tíma til að skoða keppnir hennar undanfarin fimm ár,“ byrjar pistillinn á síðunni.
„Fyrir utan tvö síðustu heimsleika þá hefur stöðugleiki hennar á mótum verið tilkomumikill. Hún hefur komist á verðlaunapall á ellefu af fjórtán mótum. Það er síðan enn merkilegra að hún hefur unnið 9 mót og þá hefur hún unnið 21 grein á þessum mótum,“ segir í færslu The Last Rep Podcast.
The Last Rep Podcast fullyrðir síðan að Sara Sigmundsdóttir sé eins og er sigursælasta CrossFit kona sögunnar þegar kemur að sigrum á mótum tengdum heimsleikunum í CrossFit.
„Það vantar bara fyrsta sætið á einum stað,“ endar færslan og þar er átt við heimsleikana í CrossFit þar sem Sara hefur tvisvar náð þriðja sæti en er ekki búin að vera á verðlaunapalli síðan árið 2016.
Sara hefur verið við toppinn mjög lengi án þess að ná að vinna heimsleikana en bæði Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir hafa unnið þá tvisvar sinnum hvor.