Tsukasa Akimoto, þingmaður Frjálslynda lýðræðisflokksins í Japan, hefur verið handtekinn vegna gruns um að hann hafi þegið mútur frá stjórnarmönnum spilavítis. Akimoto er sagður hafa tekið við rúmlega fjórum milljónum íslenskum krónum í formi mútugreiðslna.
Akimoto fór fyrir starfshópi ríkisstjórnar Shinzo Abe sem skoðaði grundvöll fyrir opnun spilavíta í landinu. Er hann sagður hafa tekið við greiðslum frá þremur ónefndum starfsmönnum spilavítis til þess að aðstoða það í útboði. Sjálfur þverneitar Akimoto að hafa þegið mútur og segist aldrei hafa staðið í neinni greiðastarfsemi við spilavíti.
Á fimmtudag var gerð húsleit á skrifstofu þingmannsins vegna grunsemdanna. Starfsmennirnir þrír sem grunaðir eru um mútugreiðslurnar voru færðir til yfirheyrslu og greindu japanskir miðlar frá því að einnig hefði leitað á skrifstofu annars þingmanns úr sama flokki í tengslum við rannsóknina.
Þingmaðurinn hefur verið mikill talsmaður spilavíta og stutt hugmyndir um opnun þeirra í landinu. Þrátt fyrir þetta benda skoðanakannanir til þess að mikill meirihluti Japana sé andvígur starfseminni.
Þingmaður grunaður um mútuþægni
