Eldur kom upp í frystihúsi Ramma á Siglufirði í morgun. Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð, segir að vinnu sé að ljúka á vettvangi og lögreglan tekin við málinu.
Eldurinn var ekki mikill að sögn Ámunda. Það sem bjargaði málum hefði verið vatnsúðakerfi hússins sem fór í gang og náði að halda eldinum niðri.
Ámundi segir að starfsmenn hafi orðið varir við eldinn vegna vatnsúðakerfisins þegar komið var til vinnu í morgun. Enginn var í hættu og segir Ámundi að þetta hafi farið miklu betur en það hefði getað farið.
