Stjórn Þórs/KA hefur samið við Gaby Guillén, 27 ára landsliðskonu frá Kosta Ríka. Hún kemur til liðsins um miðjan febrúar að því er segir í frétt á heimasíðu Þórs.
Hún kemur til Akureyrarliðsins frá Deportivo Saprissa í heimalandinu en hún hefur leikið 11 landsleiki fyrir Kosta Ríka, meðal annars í lokakeppni HM 2015 en Kosta Ríka er í 37.sæti heimslistans. Til samanburðar má benda á að íslenska landsliðið er í 18.sæti.
Gaby hefur einnig leikið í háskólaboltanum í Bandaríkjunum en hún þykir fjölhæfur leikmaður, getur leikið allan vinstri vænginn auk þess að spila á miðjunni.
Þór/KA hafnaði í 4.sæti Pepsi Max deildarinnar á síðustu leiktíð en liðið hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari síðastliðinn áratug.
Norðankonur sækja liðsstyrk til Kosta Ríka
