Körfubolti

Lakers vann tíunda leikinn í röð og Doncic fór enn og aftur á kostum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron og félagar í Los Angeles Lakers eru með besta árangurinn það sem af er tímabili í NBA-deildinni.
LeBron og félagar í Los Angeles Lakers eru með besta árangurinn það sem af er tímabili í NBA-deildinni. vísir/getty
Los Angeles Lakers vann sinn tíunda leik í röð þegar liðið bar sigurorð af Washington Wizards, 125-103, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Lakers vann síðast tíu leiki í röð í desember 2009.

Lakers jafnaði þarna bestu byrjun sína eftir 19 leiki á tímabili. Liðið er á toppi Vesturdeildarinnar með 17 sigra og tvö töp.

Anthony Davis skoraði 26 stig og tók 13 fráköst og LeBron James var með 23 stig og ellefu stoðsendingar.



Tólf aðrir leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt.

Luka Doncic fór enn einu sinni á kostum þegar Dallas Mavericks lagði Phoenix Suns, 113-120, að velli.

Slóveninn skoraði 42 stig, tók níu fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Hann hefur aldrei skorað fleiri stig í leik í NBA. Doncic er þriðji stigahæsti leikmaður deildarinnar og aðeins LeBron hefur gefið fleiri stoðsendingar.



Í nóvember var Doncic með 32,4 stig, 10,3 stig og 10,4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Aðeins tveir aðrir leikmenn, Oscar Robertsson og Russell Westbrook, hafa afrekað það að vera með þrefalda tvennu og yfir 30 stig að meðaltali í leik í einum mánuði í sögu NBA.



Milwaukee Bucks sigraði Cleveland Cavaliers, 110-119. Milwaukee hefur unnið tíu leiki í röð.

Giannis Antetokounmpo skoraði 33 stig og tók tólf fráköst fyrir Milwaukee sem er á toppnum í Austurdeildinni með 16 sigra og þrjú töp.



Meistarar Toronto Raptors halda áfram að gera góða hluti en í nótt unnu þeir Orlando Magic, 83-90. Þetta var sjötti sigur Toronto í röð. Norman Powell skoraði 33 stig fyrir Toronto og Fred VanVleet 22.



Úrslitin í nótt:

LA Lakers 125-103 Washington

Phoenix 113-120 Dallas

Cleveland 110-119 Milwaukee

Orlando 83-90 Toronto

Brooklyn 112-107 Boston

Detroit 107-110 Charlotte

NY Knicks 95-101 Philadelphia

Miami 122-105 Golden State

Indiana 105-104 Atlanta

Oklahoma 109-104 New Orleans

Memphis 94-103 Utah

San Antonio 107-97 LA Clippers

Portland 107-103 Chicago

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×