Einar Andri Einarsson lætur af störfum sem þjálfari Aftureldingar þegar samningur hans við félagið rennur út eftir tímabilið.
Þetta staðfesti Einar Andri í samtali við Vísi í dag. Hann tilkynnti stjórnarmönnum Aftureldingar um ákvörðun sína fyrr í vikunni.
„Þetta er sjötta tímabilið mitt hjá Aftureldingu og ég tel að það sé kominn tími á breytingar. Þetta hefur verið frábær tími og frábært að vinna fyrir Aftureldingu. Markmiðið er að klára tímabilið af krafti,“ sagði Einar Andri.
Hann tók við Aftureldingu sumarið 2014. Á hans fyrsta tímabili við stjórnvölinn komst Afturelding, sem var þá nýliði, í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í 16 ár. Í úrslitunum töpuðu Mosfellingar fyrir Haukum, 3-0.
Tímabilið 2015-16 komst Afturelding aftur í úrslitaeinvígið en tapaði aftur fyrir Haukum, 3-2.
Á þriðja tímabili Einars Andra komst Afturelding í bikarúrslit í fyrsta sinn í 14 ár. Liðið laut þar í lægra haldi fyrir Val, 26-22.
Á síðasta tímabili lenti Afturelding í 6. sæti Olís-deildar karla og féll úr leik fyrir Val, 2-0, í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar.
Áður en Einar Andri tók við Aftureldingu var hann þjálfari FH í fimm ár. Undir stjórn hans og Kristjáns Arasonar urðu FH-ingar Íslandsmeistarar 2011.
Afturelding er í 2. sæti Olís-deildar karla með 17 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Hauka. Mosfellingar mæta KA-mönnum fyrir norðan á morgun.
Einar Andri hættir með Aftureldingu eftir tímabilið
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Mest lesið



Grealish og Foden líður ekki vel
Enski boltinn


Njarðvík og ÍR fögnuðu bæði tveimur sigrum í kvöld
Íslenski boltinn




