Líknarselið Rowans Hospice í Bretlandi birti á þriðjudaginn færslu á Twitter þar sem óskað var eftir hjálp netverja um að koma ósk ónafngreinds sjúklings hjá þeim til skila.
„Við erum með sjúkling sem er risastór Stjörnustríðsaðdáandi. Því miður er tíminn honum ekki hliðhollur. Hann langar að sjá síðustu Stjörnustríðsmyndina, Rise of Skywalker, með ungum syni sínum,“ stóð meðal annars í færslunni.
Can you help? We have a patient who's a HUGE #StarWars fan. Sadly, time is not on his side for the 20th Dec. His wish is to see the final Star Wars film #RiseOfSkywalker with his young son. If you know ANYBODY who might be able to make it happen, please share with them. Thank you
— Rowans Hospice (@RowansHospice) November 26, 2019
Færslan fékk gríðarleg viðbrögð og meðal þeirra sem fleyttu skilaboðunum áfram var Mark Hamill, sem farið hefur með hlutverk Loga Geimgengils í myndunum, við góðan orðstír.
Bob Iger, stjórnarformaður og forstjóri Disney, tísti síðan á fimmtudag að fyrirtækið myndi verða við ósk mannsins.
„Þessa þakkargjörðarhátíð, erum við hjá Disney þakklát að geta deilt Rise of Skywalker með sjúklingi og fjölskyldu hans. Megi mátturinn vera með ykkur og okkur öllum,“ skrifaði Iger á Twitter og beindi orðum sínum að líknardeildinni.
On this Thanksgiving, we at @Disney are grateful to be able to share #TheRiseOfSkywalker with a patient and his family @RowansHospice. May the force be with you and with us all!
— Robert Iger (@RobertIger) November 28, 2019
Í yfirlýsingu frá líknardeildinni sagði Lisa Davies, starfsmaðurinn sem kom ósk sjúklingsins til annarra starfsmanna deildarinnar, að hún væri „algerlega orðlaus.“
„Við kunnum ótrúlega vel að meta að þau [hjá Disney] hafi lagt allt á sig til þess að gera þetta að veruleika.“