Skoðun

Lífið er of stutt

Sveinn Arnarsson skrifar
Lífið er of stutt fyrir vont kaffi, of stutt fyrir rauðvínssull úr neðstu hillu og of stutt fyrir bíómyndaáhorf undir 6,0 á IMDb. Það er einnig of stutt til þess að háma í sig vondan mat eða festa sig í aðstæðum sem valda ekki ánægju. Lífið er of stutt fyrir leiðinlega knattspyrnuleiki, tuð um stjórnmál og almenn leiðindi.

Sýknt og heilagt er básúnað að lífið felist í því að finna gleðina og eyða ekki tíma sínum  í aðstæðum eða við daglegar gjörðir sem gera ekkert fyrir mann; sóa hinum dýrmæta tíma sem almættið hefur útdeilt til okkar. Það er nefnilega þannig að lífið er of stutt til að tileinka sér hluti sem valda ekki ánægju.

Og mörlandinn er að mestu sammála þessum samt sem áður margþreytta frasa. Merking frasans er hins vegar að einhverju leyti dýpri því í gangverki okkar vestræna samfélags er skorturinn það sem öllu máli skiptir. Við erum aðeins grunlausir og nautheimskir neytendur í leit að betra kaffi, betri mat, betra rauðvíni og skemmtilegri afþreyingu.

Þennan frasa virðast íbúar höfuðborgarsvæðisins kirja ómeðvitað innra með sér um tuttugu klukkustundir á ári. Hins vegar slokknar allhressilega á möntrunni um að lífið sé of stutt í tvær klukkustundir að morgni og aftur í tvo tíma síðdegis. Þá er í lagi að hætta lífsgæðakapphlaupinu og forheimskast í íslenskri umferðarmenningu.

Leitina að betra kaffi og betra rauðvíni má líka heimfæra á umferðarmenningu okkar Íslendinga.

Lífið er of stutt fyrir einkabílinn.




Skoðun

Sjá meira


×