„Bara ágætlega. Ánægður að við höfum klárað þetta í 3. leikhluta en við vorum alltof slakir í fyrri hálfleik, sérstaklega varnarlega,“ sagði Matthías Orri Sigurðarson eftir 19 stiga sigur KR á Fjölni í Dominos deild karla í körfubolta í kvöld.
Leikurinn endaði með 99-80 sigri KR en Íslandsmeistararnir voru lengi í gang í kvöld gegn góðu liði Fjölnis. Matthías Orri hrósaði þeim í hástert eftir leikinn.
„Við vorum lengi í gang gegn spræku liði Fjölnis sem eru bara mjög góðir, en við ætlum að laga það og koma öflugri inn í næsta leik.“
„Það er yndislegt, að vera með Kristó [Kristófer Acox] þarna, Jakob bróðir [Jakob Sigurðarson, eldri bróðir Matthíasar],Jón [Arnór Stefánsson] og Helga [Má Magnússon] er bara draumur. Ég er hrikalega ánægður körfuboltalega séð núna og get eiginlega ekki beðið eftir að mæta á æfingar, spila og læra af þeim,“ sagði Jakob að lokum aðspurður hvernig það væri að spila með æskufélaga sínum Kristófer en sá síðarnefndi er að koma til baka eftir erfið meiðsli.
