Nokkur lið hafa áhuga á því að fá hinn umdeilda Antonio Brown til liðs við sig eftir að hann var látinn fara frá New England Patriots. Þetta segir umboðsmaður hans.
Brown var leikmaður Oakland Raiders en eftir rússíbanareið fór hann til New England Patriots í upphafi tímabilsins.
Á dögunum var hann sakaður um nauðgun af fyrrum einkaþjálfara sínum. Í framhaldinu leysti Patriots hann undan samningi.
ESPN segir að forráðamenn deildarinnar eigi ekki von á því að neitt lið fái Brown til sín fyrr en rannsókn deildarinnar á málinu sé lokið.
Drew Rosenhaus sagði hins vegar við bandaríska fréttamiðilinn að hann hafi verið í sambandi við nokkur lið sem hafi spurst fyrir um stöðu málsins.
