Gísli Kristjánsson, framleiðslustjóri, segist ekki vita til þess að fuglahræður af þessu tagi hafi verið notaðar á Íslandi áður. Hugmyndin hafi kviknað þegar tæknistjóri fyrirtækisins sá þær í Danmörku.
Máfurinn á það til að sækja í hafnir þar sem verið er að landa fiski og eru hræðurnar fyrst og fremst hugsaðar til að fæla hann frá við löndun á bryggjunni við fiskvinnsluna.
„Við höfum verið að nota ýmsar aðrar lausnir eins og fuglahljóð í hátölurum og strengja net yfir athafnasvæðið. Við ákváðum bara að prófa þetta. Ég held að það megi alveg segja það að það hafi gefið ágætis raun,“ segir Gísli.
