Sjálfsmark Zouma tryggði nýliðunum stig á Brúnni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Fyrsta mark Zouma í búningi Chelsea síðan 2016 var í eigið net
Fyrsta mark Zouma í búningi Chelsea síðan 2016 var í eigið net vísir/getty
Kurt Zouma kostaði Chelsea sigurinn gegn nýliðum Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Heimamenn byrjuðu leikinn vel og skoraði Tammy Abraham fyrsta markið á 19. mínútu. Dean Henderson, markmaður Sheffield sem er á láni frá Manchester United, missti skalla Abraham undir pressu frá Christian Pulisic og ungi framherjinn potaði frákastinu í netið.

Abraham bætti við öðru marki áður en hálfleikurinn var úti eftir mistök varnarmanna Sheffield. Staðan var 2-0 fyrir Chelsea í hálfeik.

Nýliðarnir voru hins vegar ekki lengi að klóra í bakkann í seinni hálfeik og skoraði Callum Robinson strax á fyrstu mínútu hálfleiksins.

Chelsea ógnaði marki Sheffield ekki mikið í seinni hálfleik og náðu gestirnir að halda stuðningsmönnum á tánum í leit að jöfnunarmarkinu.

Chelsea virtist ætla að ná að hanga á sigrinum en á síðustu mínútum venjulegs leiktíma fór boltinn í mark Chelsea eftir fyrirgjöf frá Robinson. Boltinn fór af sköflungi Zouma og varð varnarmaðurinn því skúrkurinn fyrir Chelsea.

Lokatölur urðu 2-2 og fara nýliðarnir líklega sáttir heim með vel sótt stig á meðan það slökknaði of mikið á Chelsea liðinu í seinni hálfleik.

Chelsea og Sheffield eru bæði með fimm stig eftir fjóra leiki í deildinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira