Lögreglan á höfuðborgarsvæðinnu tók tíu búkmyndavélar til notkunar í tilraunskyni árið 2016. Í byrjun árs var ákveðið að fjölga vélunum og nýlega festi embættið kaup á tæplega fjörutíu vélum.

Lögreglumenn sem sinntu löggæslu um helgina notuðu nýju vélarnar í fyrsta sinn.
Ásgeir segir að nú séu til nógu margar vélar til að allir útivinnandi lögreglumenn fái úthlutað búkmyndavél í upphafi vaktar, sem og auka vélar fyrir miðbæjarlöggæsluna um helgar og önnur verkefni sem komi upp.
Tilgangurinn sé fyrst og fremst að afla betri sönnunargagna.
„Og auðvitað erum við búin að fá til okkar nokkur erfið mál undanfarið þar sem við höfðum gjarnan viljað vera með myndbandsupptöku til að sýna hlið lögreglumannsins til þess að taka af allan vafa um það sem gerðist á vettvangi,“ segir Ásgeir.
Lögreglumenn hafi lengi kallað eftir auknu eftirliti. Lögreglubílarnir séu búnir myndavélum að innan og utan, myndavélar séu í fangamóttöku og klefum og eru búkmyndavélarnar síðasti hlekkurinn í keðjunni að sögn Ásgeirs.
„Ég hef trú á því að á endanum mun það spara okkur talsvert að eiga þetta efni en hver vél kostar á annað hundrað þúsund krónur,“ segir Ásgeir.
Verklagsreglur um notkun vélanna eru í vinnslu og verða þær gefnar út á allra næstu dögum. „Verklagsreglurnar taka á allri notkun og vörslu og vistun gagna. Lögreglumenn geta ekki eytt upptökum,“ segir Ásgeir.
Hver vél er skráð á lögreglumann í byrjun vaktar og í lok hennar dælir hann efninu inn á miðlægan gagnagrunn lögreglunnar
„Lögreglumaðurinn er alltaf sá sem ýtir á upptökutakkann en við leggjum mikið upp úr því eftir innleiðingu vélanna að eiga sem mest efni,“ segir Ásgeir.