Fylgdarvél af gerðinni Pilatus PC-12 fylgir Spitfire-vélinni. Um borð í henni verða, auk flugmanna, leiðangursstjóri, flugvirki og kvikmyndatökulið. Lesa má um leiðangurinn og sögu vélarinnar á Silverspitfire.com.
Þessi tiltekna vél kallast Silver Spitfire, smíðuð árið 1943 af Vickers Supermarine í Castle Bromwich við Birmingham. Hún tók þátt í 51 loftorustu í síðari heimsstyrjöld, þar á meðal innrásinni í Normandí.
Leiðangurinn lenti síðdegis í bænum Lossiemouth í Norður-Skotlandi. Þaðan er stefnt að því að fljúga til Íslands á morgun með millilendingu í Færeyjum en hvort sú áætlun stenst ræðst af veðri á leiðinni. Áhafnir vélanna áætla að hvílast yfir nótt í Reykjavík áður en flogið verður áfram áleiðis til Kulusuk á Grænlandi.

Supermarine Spitfire er raunar talin eiga metið sem hraðfleygasta flugvél heims með hefðbundinni loftskrúfu. Í síðari heimsstyrjöld var dæmi um að hún hefði náð 998 kílómetra hraða árið 1944 og árið 1952 mældist Spitfire á 1.110 kílómetra hraða en flugmaðurinn var þá í neyðardýfu í njósnaleiðangri yfir Kína.
Alls voru yfir tuttugu þúsund eintök smíðuð af mismunandi útgáfum Spitfire á árunum 1938 til 1948. Núna eru eftir í flughæfu ástandi aðeins um fimmtíu vélar í heiminum.
Fyrir áhugamenn um flugsögu síðari heimsstyrjaldar hefur þetta sumar verið óvenju gjöfult í Reykjavík, með Catalina-flugbátum og þristum, eins og sjá mátti meðal annars í þessari frétt: