Innlent

Forsetinn minnist kveðju forvera síns til tunglfaranna

Kjartan Kjartansson skrifar
Fótur Buzz Aldrin á tunglinu árið 1969.
Fótur Buzz Aldrin á tunglinu árið 1969. AP/NASA
Kveðja Kristjáns Eldjárn, þáverandi forseta Íslands, ferðaðist með bandarísku geimförunum sem fóru til tunglsins í Apolló 11-leiðangrinum. Guðni Th. Jóhannesson, forseti, rifjar upp kveðjuna í tilefni þess að í dag eru fimmtíu ár liðin frá því að geimfararnir lentu á tunglinu.

Þeir Neil Armstrong og Edwin „Buzz“ Aldrin lentu á tunglinu fyrstir manna sunnudaginn 20. júlí árið 1969. Þeir stigu fæti á yfirborð tunglsins aðfaranótt 21. júlí að íslenskum tíma. Í færslu á Facebook-síðu forsetaembættisins minnist Guðni tímamótanna og segir tunglendinguna jafnvel verða talda merkasti atburður 20. aldarinnar þegar fram líða stundir.

Í farteski geimfaranna var disklingur sem á voru letraðar kveðjur frá 73 þjóðarleiðtogum, þar á meðal frá Kristjáni Eldjárn sem þá var forseti.

„Íslenska þjóðin færir kveðjur sínar með Apolló 11 og óskar geimförunum góðs gengis á þeirra sögulegu för. Megi hinir miklu sigrar geimrannsókna leiða mannkyn á braut friðar og farsældar,“ sagði í kveðju Kristjáns sem Guðni snaraði yfir af ensku.

Með færslunni deildi Guðni mynd af bandarísku geimförunum við æfingar á Íslandi árið 1965. Geimfararnir undirbjuggu sig meðal annars fyrir jarðfræðirannsóknir á tunglinu á norðausturlandi.

„Vísindin efla alla dáð, eins og skáldið Jónas kvað svo vel,“ skrifar Guðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×