Enski boltinn

De Gea vill verða fyrirliði United

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
David de Gea
David de Gea vísir/epa
David de Gea vill verða fyrirliði Manchester United nú þegar hann hefur ákveðið að skrifa undir nýjan samning við félagið.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð de Gea en um helgina sögðu enskir miðlar frá því að de Gea hefði samþykkt sex ára samning við Manchester United og myndi skrifa undir hann þegar United snýr aftur til Englands úr æfingaferð.

Samningurinn gerir de Gea að launahæsta markmanni heims og einn launahæsta leikmann liðsins og hann vill fá meiri ábyrgð, hann vill fyrirliðastöðuna.

Fyrirliðastaðan er laus hjá Manchester United eftir að Antonio Valencia yfirgaf félagið fyrr í sumar.

„Ég hef verið fyrirliði í nokkurm leikjum. Það er frábært að vera fyrirliði félags eins og Manchester United og verja merki félagsins,“ sagði Spánverjinn.

„Ég verð mjög, mjög ánægður ef ég verð fyrirliði.“

„Þetta er mitt níunda tímabil og mér finnst ég vera einn af reyndustu leikmönnunum. Ég verð að sýna það á vellinum og reyna að hjálpa ungu leikmönnunum að skilja hvað það þýðir að spila fyrir Manchester United.“

„Við þurfum að bæta okkur mikið. Við erum Manchester United, við þurfum að vera að berjast um titla.“

„Að klæðast treyju United þýðir að við berjumst fyrir öllu, gefum okkar besta og komum liðinu aftur á toppinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×