Washington Post segir að Trump og Coats hafi greint á um ógnina sem steðji af kosningaafskiptum Rússa, framgangi kjarnorkuáætlunar Írans og hættuna af Ríki íslams í Sýrlandi. Coats hafi fundist hann einangraður innan ríkisstjórnarinnar og útilokaður frá meiriháttar þjóðaröryggisákvörðunum.
Trump tilkynnti um brotthvarf Coats með tísti í gær þar sem hann þakkaði honum aðeins stuttlega fyrir þjónustu hans.
I am pleased to announce that highly respected Congressman John Ratcliffe of Texas will be nominated by me to be the Director of National Intelligence. A former U.S. Attorney, John will lead and inspire greatness for the Country he loves. Dan Coats, the current Director, will....
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 28, 2019
New York Times segir að sumir þingmenn, þar á meðal Richard Burr, formaður leyniþjónustunefndar öldungadeildarinnar, og þingmaður repúblikana, hafi lýst efasemdum um tilnefningu Ratcliffe sem þeir óttast að sé of pólitískur fyrir starf yfirmanns leyniþjónustunnar.
Demókratar hafa áhyggjur af því að hollusta við Trump frekar en hæfni í starfið eigi eftir að ráða við valið á eftirmanni Coats.
Reiðir yfir að Coats væri í mótsögn við forsetann
Coats er sagður hafa reitt ráðgjafa Trump forseta til reiði þegar hann sagði á ráðstefnu í Aspen að hefði Trump spurt hann ráða, hefði hann ráðlagt honum að funda ekki einslega með Vladímír Pútín Rússlandsforseta í júlí í fyrra. Trump og Pútín ræddu þá saman án þess að nokkrir aðstoðarmenn eða embættismenn Hvíta hússins væru viðstaddir.Trump hefur einnig hellt úr skálum reiði sinnar yfir Coats. Eftir að leyniþjónustustjórinn bar vitni fyrir öldungadeild þingsins og sagði ólíklegt að Norður-Kórea ætti eftir að gefa eftir kjarnavopn sín, Íran væri ekki að smíða kjarnavopn og að Ríki íslams gæti enn valdið usla í Sýrlandi, sem stangaðist allt á við fullyrðingar Trump, kallaði forsetinn hann „aðgerðalausan og barnalegan“ og stakk upp á að hann ætti að fara í endurmenntun.
Þá er Hvíta húsið ítrekað sagt hafa dregið úr gagnrýni Coats á framferði rússneskra stjórnvalda. Í leynilegri skýrslu um afskipti Rússa af þingkosningunum í fyrra hafi Coats farið hörðum orðum um hvernig Rússa ýttu undir samsæriskenningar og ólu á sundrung innan Bandaríkjanna. Í opinberri yfirlýsingu sem Hvíta húsið sendi út var verulega dregið úr gagnrýninni.
Á móti hefur Ratcliffe, sem Trump vill að taki við, tekið undir samsæriskenningar forsetans um að Rússar hafi átt í leynilegu samráði við Hillary Clinton, mótherja Trump í forsetakosningunum árið 2016, um að koma höggi á Trump.
Coats var áður fulltrúa- og öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins frá Indiana.