Skoðun

Syndaskattar

Katrín Atladóttir skrifar
Skattkerfið á eingöngu að nýta til að afla ríkinu tekna til nauðsynlegra verkefna. Skattkerfið á ekki að nota til að stýra hegðun og neyslu skattgreiðenda. Reglulega dúkka þó upp hugmyndir um ýmsa syndaskatta í þeim tilgangi. Hugsunin kann að vera göfug en þessi lausn er vond.

Það er ákveðinn freistnivandi í pólitík að finna ekki sífellt upp nýja skatta og gjöld, undir fögrum fyrirheitum. Þegar á hólminn er komið renna þessir nýju skattar og gjöld í hítina og koma neyslustýringu, umhverfismálum, innviðum, sjónvarpsútsendingum eða hverju því verkefni sem stjórnmálamenn hafa ætlað sér að leysa, í raun ekkert við. Með því að búa til ný heiti mætti þó auka skattheimtu út í hið óendanlega.

Síðasta vinstri stjórn lagði sérstakan skatt á sykraðar vörur sem skilaði tæpum milljarði í ríkiskassann þar til hann var lagður niður, með tilheyrandi hækkun á vísitölu neysluverðs og þar með húsnæðislánum landsmanna. Upphæðin var hærri en áætlað og rannsókn Rannsóknarseturs verslunarinnar frá 2015 bendir til að hann hafi ekki haft veruleg áhrif á neyslu. Síðasti sykurskattur hafði því ekki tilætluð áhrif á neyslu en jók tekjur ríkissjóðs.

Syndaskattar leggjast þyngst á lægri tekjuhópa. Þeir sem hafa lágar tekjur verja stærra hlutfalli að tekjum sínum í sama magn af sykri, tóbaki eða áfengi en þeir sem hafa hærri tekjur. Þannig auka syndaskattar ójöfnuð.

Verðbreytingar hafa ólík áhrif á eftirspurn eftir því um hvaða vöru ræðir. Reykingamaðurinn er þannig líklegri til að segja upp svo sem einni sjónvarpsstöð í stað þess að hætta að reykja. Þá þarf að huga að því hvað neytendur kaupa í stað hinnar skattlögðu vöru, en dæmi eru um að sykurskattar hafi aukið neyslu áfengis erlendis.

Lífsstílssjúkdómar eru raunverulegt vandamál. En ef það væri hægt að skattleggja öll vandamál í burtu væru sennilega engin vandamál á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×