Arnar Freyr Frostason og Salka Sól Eyfeld eiga von á sínu fyrsta barni. Þau tilkynntu um óléttuna í gær á samfélagsmiðlum en þetta er fyrsta barn þeirra beggja.
Í færslu sem Salka birti á Twitter-síðu sinni í gær sagði hún barnið vera meira en velkomið í heiminn og sagði „lítinn lurk“ vera á leiðinni.
Sjá einnig: Arnar Freyr og Salka Sól eiga von á barni
Salka birti í dag einlæga færslu á Instagram-síðu sinni þar sem hún talar um óléttuna og þakkar fyrir kveðjurnar. Þar segist hún lengi vel hafa staðið í þeirri trú að hún gæti ekki orðið ólétt og síðustu ár hafi ýmislegt verið reynt, bæði aðgerðir og lyfjagjöf.
Takk fyrir allar fallegu kveðjurnar Í mörg ár hélt ég að myndi aldrei geta orðið ólétt og síðustu ár var allt reynt til að láta það gerast. Ég var sett á allskonar pillur og lyf fór í aðgerðir á eggjastokkum, en ekkert virtist ganga. Það er ótrúlegur kvíði og vanlíðan sem fylgir því komast að eigin ófrjósemi. Maður hugsar alls ekki rökrétt og allar fréttir af börnum og ólettum urðu svo erfiðar og það var mikið grátið. Við Arnar fórum svo á fund hjá Livio og ákváðum að fara í tæknifrjóvgun sem er langt og strangt ferli. Það var því svo mikill léttir þegar hún gekk hjá okkur í fyrstu tilraun eftir allar sorgina sem gekk á undan. Við náðum aðeins einu eggi sem var sett i frysti og síðan var það sett upp. Þess vegna köllum við þann sem er i bumbunni Litla Lurkinn okkar Ég treysti mér aldrei til að tala um þetta opinberlega, sorgin og kvíðinn sem fylgdi þessu var einfaldlega of mikill. Ég var hins vegar mjög opin með þetta við fólkið mitt, en núna finnst mér gott að létta af mér. Við getum ekki beðið eftir því að verða foreldrar þessa barns.View this post on Instagram
A post shared by S A L K A S Ó L (@salkaeyfeld) on Jul 3, 2019 at 4:40am PDT
„Það er ótrúlegur kvíði og vanlíðan sem fylgir því að komast að eigin ófrjósemi. Maður hugsar alls ekki rökrétt og allar fréttir af börnum og óléttum urðu svo erfiðar og það var mikið grátið,“ skrifar Salka í færslunni.
Parið ákvað í kjölfarið að fara á fund hjá Livio og var ákveðið að fara í tæknifrjóvgun. Tæknifrjóvgun er oft á tíðum langt og strangt ferli og segir Salka það hafa verið mikinn létti þegar frjóvgunin gekk í fyrstu tilraun.
Hún útskýrir síðan gælunafnið „litla lurk“ en nafnið er komið til vegna þess að aðeins náðist eitt egg sem sett var í frysti og síðar sett upp. Það hafi því legið beint við að kalla erfingjann „litla lurkinn“ þeirra en eins og flestir vita er lurkur nafn á einum þekktasta frostpinna þjóðarinnar.
Það er því óhætt að segja að mikil gleði ríki hjá parinu og hlakka þau mikið til að verða foreldrar. Næst á dagskrá er þó brúðkaup en Arnar og Salka ganga í það heilaga þann 27. júlí næstkomandi.
Mesti kvíði og vanlíðan sem ef hef upplifað er að díla við ófrjósemi. Spurningar eins og "hvenær á nú að koma með eitt..", fólkið í kringum mig að eignast börn, ástarsorgin sem fylgir í hvert sinn sem maður byrjar á túr 1/3
— Salka Sól Eyfeld (@salkadelasol) May 1, 2018