Tveir nýir hluthafa hafa bæst við eigendahóp útgáfufélags vefmiðilsins Kjarnans og Vísbendingar. Úlfar Erlingsson og Charlotta María Hauksdóttir annars vegar og eignarhaldsfélagið Vogabakkar ehf. keyptu 4,67 prósent hlut hvor.
Í frétt á vef Kjarnans kemur fram að útgáfufélagið Kjarninn miðlar ehf. hafi sjálft selt hlutina en það átti 6,25 prósent hlut í sjálfu sér. Þá hafi hlutafé þess verið aukið lítillega. Það á að nýta til að fjölga stöðugildum hjá Kjarnanum og styrkja starfsemi hans.
Eigendur Vogabakka eru Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson. Á vefsíðu félagsins segir að það einbeiti sér að vel reknum fyrirtækjum með góða rekstrarsögu en taki síður þátt í sprotafyrirtækjum eða verkefnum sem krefjast mikils viðsnúnings í rekstri.
Hluthafar Kjarnans eru eftir viðskiptin þrettán talsins. Stærsti einstaki hluthafinn er eftir sem áður HG80 ehf., félag Hjálmars Gíslasonar sem er einnig stjórnarformaður Kjarnans miðla. Það á 17,68 prósent hlut í útgáfufélaginu.
Kjarninn bætir við hluthöfum
