Menning

Allir miðlar með sinn fulltrúa

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Þetta er eina sýningin á tveggja ára fresti sem listamenn sækja um að taka þátt í, segir Hlynur.
Þetta er eina sýningin á tveggja ára fresti sem listamenn sækja um að taka þátt í, segir Hlynur. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Nú stendur yfir í Listasafninu á Akureyri sýningin Vor en þar sýna norðlenskir myndlistarmenn verk sín. Venjulega tökum við ekki á móti umsóknum um sýningar en þetta er eina sýningin á tveggja ára fresti sem listamenn sækja um að taka þátt í. Þeir senda inn tillögur að þremur verkum og fimm manna dómnefnd velur verk og listamenn,“ segir Hlynur Hallsson safnstjóri listasafnsins en hann var í hópi þeirra sem sátu í dómnefnd. „Þetta er í þriðja sinn sem við höldum sýningu eins og þessa, sú fyrsta var 2015 og önnur sýningin fyrir tveimur árum. Að þessu sinni sýna 30 listamenn tæplega 40 verk.“

Endurspeglun fjölbreytileika

Forsenda þátttöku var að myndlistarmennirnir búi eða starfi á Norðurlandi eða hafi tengingu við svæðið. „Við erum ekki að skilgreina ítarlega hvað er að vera norðlenskur listamaður. Það nægir að listamaðurinn sé fæddur á Norðurlandi en búi annars staðar, það er nóg að hafa verið í námi á Norðurlandi eða búið þar einhvern tíma. Fólk skilgreinir sig sjálft sem norðlenska listamenn. Þetta árið búa um tveir þriðju þátttakenda fyrir norðan.“

Hlynur segir mikla fjölbreytni einkenna sýninguna. „Þarna eiga allir miðlar sinn fulltrúa: textíll, málverk, skúlptúrar, innsetningar, ljósmyndir, teikningar og svo framvegis. Verkin endurspegla fjölbreytileikann í því sem er að gerast hjá norðlenskum listamönnum. Ég er stundum spurður hvort norðlensk list sé eitthvað öðruvísi en sunnlensk list eða höfuðborgarlist. Mitt svar er að það sé mjög erfitt að skilgreina það á sama hátt og erfitt er að skilgreina íslenska list,“ segir Hlynur.

Sýningin stendur fram í september.

Verk eftir listakonuna Jonnu en hún sýnir heklaða, hangandi skúlptúra.

Tólf mismunandi rými

Ekki er langt síðan miklar endurbætur voru gerðar á Listasafninu á Akureyri og það stækkað verulega.

„Við erum mjög ánægð með þessa stækkun á safninu sem var löngu tímabær og ánægðust erum við með viðbrögðin sem hafa farið fram úr okkar björtustu vonum. Við erum núna með 12 mismunandi rými þannig að við getum verið með 5-7 sýningar í gangi í einu,“ segir Hlynur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×