ÍBV vann þægilegan sigur á HK/Víking í sjöttu umferð Pepsi Max deildar kvenna í fótbolta.
Cloe Lacasse kom gestunum úr ÍBV yfir í Kórnum á 23. mínútu leiksins en Guðrún Gyða Haralz jafnaði metin aðeins tveimur mínútum seinna.
Kristín Erna Sigurlásdóttir kom gestunum aftur yfir á 33. mínútu eftir varnarmistök heimakvenna.
Í seinni hálfleik fékk ÍBV víti þegar brotið var á Lacasse innan vítateigs. Hún fór sjálf á punktinn og skoraði. Verkefnið varð enn erfiðara fyrir HK/Víking þegar Eygló Þorsteinsdóttir fékk rautt spjald á 75. mínútu.
Eyjakonur nýttu liðsmuninn ekki til þess að setja fleiri mörk en sigldu heim þægilegum sigri.
ÍBV er nú komið með níu stig í deildinni líkt og Stjarnan.
