Iðnaðarsamtök Bretlands, ein stærstu viðskiptahagsmunasamtök landsins, vara frambjóðendur í leiðtogavali Íhaldsflokksins við því að það muni skaða samkeppnishæfni Bretlands til langframa gangi landið úr Evrópusambandinu án útgöngusamnings. Nokkrir frambjóðendanna vilja ganga út án samnings.
Tólf bjóða sig nú fram í leiðtogavali Íhaldsflokksins eftir að Theresa May, forsætisráðherra, tilkynnti að hún ætlaði að stíga til hliðar 7. júní. May varð lítt ágengt í að ná samstöðu innan flokksins um skilmála útgöngunnar.
Í bréfi til frambjóðendanna segja Iðnaðarsamtök Bretlands að útganga án samnings ylli röskunum til skemmri tíma litið og langtímaskaða á samkeppnishæfni Bretlands, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
„Mikill meirihluti fyrirtækja getur aldrei búið sig undir samningsleysi, sérstaklega [lítil og miðlungsstór fyrirtæki] í okkar röðum sem hafa ekki efni á flóknum og dýrum viðbúnaðaráætlunum,“ segir í bréfi Carolyn Fairbairn, framkvæmdastjóra samtakanna.
Þess í stað telji fyrirtæki stór sem smá að besta leiðin sé að segja skilið við Evrópusambandið með samningi um hvernig samskiptunum við Evrópu skuli háttað í kjölfarið.
Upphaflega ætluðu Bretar að yfirgefa ESB í lok mars. Því var frestað þegar þinginu tókst ekki að samþykkja útgöngusamning. Fyrirhugaður útgöngudagur er nú 31. október.
