Skoðun

Væntingar um veður

Þorbjörg Gunnlaugsdóttir skrifar
Í gærmorgun gladdist ég innilega við að sjá glitrandi geisla sólarinnar. Sólin fangaði einhverja nýja óþekkta tilfinningu og sem kona á fimmtugsaldri vil ég skilja tilfinningar mínar. Eftir dálitla íhugun með sólgleraugu á nefinu, klædd rauðri sumarkápu fann ég að það sem gladdi mest var að sólin birtist alveg óvænt.

Það hafði verið þungt högg að lesa þriggja mánaða veðurspá sem boðaði blautt sumar. Á íslensku þýðir það loforð um rigningu í 90 daga. Þær væntingar hafa auðvitað áhrif á lífsgæði lítillar þjóðar. Mætti kannski hlífa okkur og vinna með þá hugmynd að banna veðurspá svona langt fram í tímann í upphafi sumars? Hugmyndafræðin er skyld þeirri að það geti verið glannalegt að birta skoðanakannanir síðustu daga fyrir kosningar vegna þess að það mótar hegðun kjósenda að vita hvernig fer. Trúir fólk því líka ekki að það hafi haft áhrif í Júróvisjón að veðbankar höfðu krýnt Holland sigurvegara löngu fyrir keppni?

Stundum má satt nefnilega kyrrt liggja. Vond veðurspá er breyta um hamingju þjóðar og um hvernig einkaneysla þróast. Grillmatur og garðhúsgögn hætta að seljast og menn mála ekki húsið í rigningu. Hjólin seljast illa sem heggur í bíllausan lífsstíl. Við keyrum óhamingjusöm um í rigningu og borðum óhollan mat úr bílalúgum. Þeir sem geta sækja sólina út og neyslan fer með þeim. Og til hvers að líma fólk við samningaborðið hjá ríkissáttasemjara um betri lífskjör ef veðurfræðin stígur svo á svið og sviptir fólk trú á betri tíð og blóm í haga – og hrekur okkur jafnvel úr landi? Nú þegar samdráttur er í fyrsta sinn frá 2010 þurfum við á öllum okkar bestu mönnum að halda, líka veðurfræðingum. Væntingarnar eru nefnilega lykillinn.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×