Körfubolti

Forseti FIBA Europe hvatti fólk til að kjósa Hannes ekki: „Óheiðarleg vinnubrögð“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes náði ekki endurkjöri í stjórn FIBA Europe.
Hannes náði ekki endurkjöri í stjórn FIBA Europe. vísir/vilhelm
Hannes S. Jónsson, formann KKÍ, vantaði aðeins eitt atkvæði til að ná halda sæti sínu í stjórn FIBA Europe.

Í færslu á Facebook segir Hannes drullufúlt að hafa ekki náð kjöri vegna óheiðarlegra vinnubragða forseta FIBA Europe, Tyrkjans Turgay Demirel.

Hannes segir að Demirel hafi unnið gegn sér og sent skilaboð á hluta aðildarlandanna hverja ætti ekki að kjósa í stjórn FIBA Europe. Formaður KKÍ var á þeim lista og Demirel varð að ósk sinni þegar Hannes var ekki kjörinn í stjórn.

Turgay Demirel hefur verið forseti FIBA Europe frá 2014.vísir/getty
Hannes segir að málflutningur Demirels sé ekki í samræmi við vinnubrögð hans.

„Forseti sem talaði um lýðræði, einingu í Evrópu og traust á milli aðila í ræðu sinni fyrir endurkjöri ætti hið minnsta að reyna að vinna eftir því. Hann aftur á móti sendir skilaboð á hluta aðildarlandanna um hverja á EKKI að kjósa. Hann má alveg hafa lista yfir þá sem hann myndi vilja fá inn í stjórnina. En að hafa lista yfir nöfn nokkurra einstaklinga sem þú sem forseti í alþjóðlegum samtökum villt EKKI hafa í stjórninni er bara eitthvað svo galið. FIBA og FIBA Europe eru samtök sem setja leikreglur fyrir fallegstu íþrótt í heimi hafa nú forseta FIBA Europe sem svífst einskis að fara á bakvið fólk og lofa embættum fyrir atkvæði er í minun huga fáranlegt,“ skrifar Hannes.

„Mikið þakka ég fyrir það að við hjá KKÍ getum borið höfuðið hátt enda tjáum við okkur, segjum okkar skoðun og það sem við meinum á faglegan hátt með hagsmuni körfuboltans að leiðarljósi. Þetta snýst ekki um það að ég hafi ekki náð kjöri heldur vinnubrögð, þannig að einn maður geti haft "sitt" fólk í kringum sig.“

Í færslunni segir Hannes að Ísland hafi ekki stutt Demirel í kosningum en ekki látið það trufla samstarfið við hann.

Hannes segir jafnframt að KKÍ hafi stutt Belgann Cyriel Coomans, fráfarandi varaforseta, til forseta FIBA Europe. Coomans fékk 23 atkvæði í kjöri til forseta FIBA Europe á móti 27 atkvæðum Demirels. Kjörtímabils forseta FIBA Europe er fjögur ár.

Færslu Hannesar má sjá hér fyrir neðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×