Haukur Helgi Pálsson átti stórleik og var stigahæstur í liði Nanterre 92 sem tryggði sér sæti í undanúrslitum frönsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta í kvöld.
Íslenski landsliðsmaðurinn var með miðið í lagi í kvöld en hann hitti úr 6 af 8 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og var samtals með 25 stig fyrir Nanterre. Leiknum lauk með 84-69 sigri Nanterre á liði Elan Bearnais.
Heimamenn byrjuðu leikinn betur en það voru gestirnir í Elan sem leiddu í hálfleik 36-34. Grænir heimamenn tóku hins vegar völdin í fjórða leikhluta og og unnu að lokum öruggan sigur.
Haukur Helgi og félagar mæta Lyon Villeurbanne í undanúrslitunum.
