Erlent

Vígreifur Maduro stillti sér upp með hernum

Birgir Olgeirsson skrifar
Maduro hrósaði hernum fyrir hollustu í sinn garð
Maduro hrósaði hernum fyrir hollustu í sinn garð Vísir/EPA
Forseti Venesúela, Nicolás Maduro, birtist í dag vígreifur fyrir framan herlið í herstöð í höfuðborginni Caracas um leið og hann kom boðum til andstæðinga sinna.

Maduro bað hermennina um að koma í veg fyrir allar tilraunir til valdaráns, en mikil óöld hefur ríkt í Venesúela síðastliðna daga þar sem andstæðingar Maduro og stuðningsmenn hans hafa tekist á.

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Juan Guaidó, reyndi í gær að koma af stað uppreisn innan hersins til að koma Maduro frá völdum. Hann hvatti einnig opinbera starfsmenn til að leggja niður störf til að grafa undan stjórn Maduros.

Maduro hrósaði hins vegar hernum fyrir hollustu í sinn garð. „Það skal enginn dirfast að snerta okkar helgu jörð eða breyta Venesúela í vígvöll,“ sagði Maduro.

Fjórir hafa látist í þessum átökum, þar á meðal tveir táningar.

Guaidó lýsti því yfir að hann væri sjálfskipaður forseti landsins í janúar síðastliðnum. Hefur Guaidó stuðning rúmlega fimmtíu ríkja, þar með talið Bandaríkjanna, Bretlands og flestra ríkja Suður Ameríku. Íslensk yfirvöld hafa einnig lýst yfir stuðningi við hann.

Guaidó heldur því fram að endurkjör Maduro sem forseta í fyrra hafi verið ólögmætt.

Maduro nýtur stuðnings Rússa, Kína og leiðtoga hersins í Venesúela og neitar alfarið að fara frá.

Hann hefur neitað fullyrðingum Mike Pompeo, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, þess efnist að Maduro hafi verið reiðubúinn að flýja landið. Sakaði Maduro Bandaríkin um að stýra tilraun til valdaráns í Venesúela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×