Álver Norðuráls á Grundartanga var rekið með rúmlega 4,5 milljóna dala hagnaði á árinu 2018, jafnvirði um 550 milljóna króna á núverandi gengi, og dróst hagnaðurinn saman frá fyrra ári um nærri 25 milljónir dala, eða sem nemur um þremur milljörðum króna.
Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Norðuráls Grundartanga ehf. en rekstrartekjur álversins jukust um liðlega 94 milljónir dala á síðasta ári og námu samtals 752 milljónum dala. Á sama tíma jókst hins vegar framleiðslukostnaður enn meira, eða sem nemur nærri 160 milljónum dala, og var tæplega 712 milljónir dala á árinu 2018.
Álverð er lágt um þessar mundir og hefur lækkað umtalsvert á síðustu misserum á sama tíma og hráefnisverð hefur hækkað nokkuð. Tonn af áli kostar í dag um 1.780 dali en í ársbyrjun 2018 stóð verðið í um 2.240 dölum á tonnið.
Stöðugildi í álverinu voru að meðaltali 575 á síðasta ári og námu launagreiðslur samtals rúmlega 51 milljón dala. Eignir félagsins voru tæplega 617 milljónir dala í árslok 2018. Bókfært eigið fé var um 409 milljónir dala og er eiginfjárhlutfall Norðuráls því um 66 prósent.
Álverið á Grundartanga er í eigu bandaríska félagsins Century Aluminum.
Hagnaður Norðuráls minnkaði um þrjá milljarða króna í fyrra
