„Ég hef verið mikill aðdáandi hans síðan ég þjálfaði á Ísafirði. Það skemmir svo ekki fyrir að hann sé sköllóttur eins og ég. Ég er mikill aðdáandi,“ sagði Borche léttur fyrir fyrsta leik sinna manna gegn KR í úrslitarimmu Íslandsmótsins.
„Það er allt í lagi mín vegna að Bubbi skuli styðja KR og syngja KR-lagið. Við tölum við Bubba eftir þetta og kannski fáum við hann til þess að styðja ÍR aðeins líka.“
Borche tjáði blaðamanni sömuleiðis að hann væri meira en til í að hitta Bubba. Uppáhaldslagið hans með Bubba er síðan „Serbian Flower“ af samnefndri plötu frá árinu 1988 þar sem Bubbi söng lög á ensku. Frábær plata. Serbian Flower er auðvitað „Serbinn“ á ensku.
Þriðji leikur liðanna fer fram í DHL-höllinni í kvöld klukkan 19.15 og hefst upphitun á Stöð 2 Sport klukkan 18.30. Grillað verður frá 17.30 og hleypt verður inn í húsið klukkan 18.00 og er fastlega búist við því að fólk þurfi að standa á pöllunum í kvöld.
„Það verður stærsta Miðja sögunnar mynduð hjá KR í kvöld. Fólk er komið í gírinn og fólk á öllum aldri er að melda sig inn í stemninguna,“ sagði Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR.
„Þeir sem hafa verið að kalla DHL-höllina bókasafnið verða fyrir vonbrigðum í kvöld.“
Hægt er að tryggja sér miða á netinu og forðast með því biðraðir. Miðasalan er hér.