Skoðun

Bólgulögmálið

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Engu er líkara en það sé lögmál að rekstur hins opinbera bólgni í sífellu út.

Dæmin sem blasa við eru mýmörg. Á kjörtímabilinu eiga til dæmis að rísa nýjar skrifstofur Alþingis við Vonarstræti. Þær skulu vera sex þúsund fermetrar og kosta um þrjá milljarða króna. Mikið er víst lagt upp úr því að innangengt sé fyrir þingmenn milli skrifstofa og fundarherbergja Alþingis. Ekki fylgir sögunni hvers vegna það er slík þolraun fyrir kjörna fulltrúa að ganga stuttar vegalengdir utandyra og fá sér frískt loft í leiðinni.

Úr stjórnarráðinu berast þau tíðindi að til standi að byggja við skrifstofur forsætisráðherra í Lækjargötu. Sómi er að verðlaunatillögunni, þótt sitt sýnist vafalítið hverjum. Því er þó alveg ósvarað hvers vegna þessa ógnarviðbót þurfi við húsið sem hýst hefur skrifstofur forsætisráðherra með myndarbrag frá 1904.

Í því samhengi er rétt að taka undir með sagnfræðingnum Birni Jóni Bragasyni sem bent hefur á að Þjóðmenningarhúsið, í sinni eilífu tilvistarkreppu, standi þarna steinsnar frá og henti vel til starfseminnar.

Svo haldið sé áfram að tala um Alþingi og ríkisstjórn, þá má minna á að aðstoðarmenn hvers ráðherra eru nú orðnir tveir en lengst af þótti duga að þeir gætu reitt sig á embættismenn í sínum ráðuneytum. Slíkt gengur auðvitað ekki lengur enda fjöldi flokksgæðinga á lausu sem sárvantar lífserindi.

Víkur þá sögu að rekstri Reykjavíkurborgar, en þar starfa hlutfallslega mun fleiri en hjá nágrannasveitarfélögunum þrátt fyrir að stærðinni ætti að fylgja hagkvæmni og minna starfsmannahald. Útsvar hefur lengi verið í lögbundnu hámarki, og borgin ætlar meira að segja að greiða sér arð úr Orkuveitunni til að fá enn meiri peninga úr að spila.

Reykjavíkurborg hefur sömuleiðis blásið út og lætur nú til sín taka á mun fleiri sviðum en áður. Borgin byggir veitingasali og endurreisir bragga. Ágóðans njóta veitingasalar sem leigja aðstöðuna langt undir markaðsvirði. Kostnaðaráætlanir virðast að meginstefnu gerðar formsins vegna hjá borginni, rétt eins og hjá ríkinu.

Sé vikið að fyrirtækjum í eigu ríkisins er sagan nokkurn veginn sú sama. Landsbankinn ætlar að byggja 16.500 fermetra höfuðstöðvar undir starfsemi sína og kosta til þess níu milljörðum króna, þrátt fyrir að bankakerfið sé nú þegar bólgið úr hófi fram af mannafla, og að fyrirséð sé að plássþörf muni frekar minnka en aukast með áframhaldandi tækninýjungum.

En áfram skal haldið í eilífri útgjaldabólgu. Svo virðist sem allir séu seldir undir sömu sök. Ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í eigu ríkisins.

Þannig er það gjarnan þegar sýslað er með annarra manna fé. Er ekki eðlilegt að velta fyrir sér hvort þrjú hundruð þúsund manna þjóð þurfi allt þetta umfang og yfirbyggingu?

Hvar eru stjórnmálamennirnir sem tala fyrir aðhaldi í ríkisrekstri og treysta sér til að láta gjörðir fylgja orðum?




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×