Í samtali við blaðamenn staðfesti Pompeo að bandarísk stjórnvöld myndu halda áfram að þrýsta á stjórnvöld í Norður-Kóreu að losa sig við gereyðingavopn. Hann sé vongóður um að viðræðurnar skili árangri og raunhæfur möguleiki sé á kjarnorkuafvopnun.
„Ekkert hefur breyst. Við munum halda viðræðunum áfram og ég mun áfram stjórna teyminu. Trump er augljóslega með yfirumsjón, en þetta er mitt teymi,“ sagði Pompeo.

Ekki vilji til viðræðna við Pompeo
Utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu sagði á fimmtudag að ekki væri vilji til viðræðna við Pompeo og var kallað eftir því að einhver „þroskaðri“ myndi taka við viðræðunum.Yfirlýsing ráðuneytisins kom nokkrum klukkustundum eftir að Norður-Kórea tilkynnti um fyrstu eldflaugatilraun sína frá seinni leiðtogafundi Trump og Kim Jong-Un og er sögð vera til þess fallin að valda klofningi milli Trump og háttsettra ráðamanna hans.
Trump hefur lýst því yfir að hann sé reiðubúinn til að funda aftur með Jong-Un en sá síðarnefndi hefur áður sagt að slíkt muni aðeins gerast ef Washington sýni meiri sveigjanleika í samskiptum. Þá sagðist hann gefa stjórnvöldum þar í landi frest til ársloka til þess að „breyta viðhorfi sínu“.
John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Trump, sagði í samtali við Bloomberg á miðvikudag að til þess að leiðtogarnir fundi aftur þurfi Norður-Kórea að sýna fram að áætlun um kjarnorkuafvopnun sé til staðar og að henni verði framfylgt.