Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta lýsti því yfir í dag að hún hefði skilgreint íranska byltingarvörðinn, hluta af her Írans, sem hryðjuverkasamtök. Bandarískir fjölmiðlar segja ákvörðunina fordæmalausa og að hún sé liður í tilraunum Trump til að leggja enn frekari refsiaðgerðir á Íran.
Washington Post segir að þetta sé í fyrsta skipti sem Bandaríkjastjórn hefur skilgreint her annars ríkis sem hryðjuverkasamtök. Blaðið segir að bandarísk her- og leyniþjónustuyfirvöld hafi varað við því að ákvörðunin geti orðið fordæmi sem óvinveitt ríki geti beitt gegn Bandaríkjunum í framhaldinu.
„Íranski byltingarvörðurinn er aðalleið írönsku ríkisstjórnarinnar til þess að stýra og koma í framkvæmd alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi sinni,“ sagði Trump í yfirlýsingu.
Ríkisstjórn Trump hefur tekið harða afstöðu gegn stjórnvöldum í Teheran. Trump sagði Bandaríkin þannig frá tímamótasamkomulagi heimsveldanna við Íran sem átti að koma í veg fyrir að Íranar þróuðu kjarnorkuvopn í fyrra. Í kjölfarið lagði Bandaríkjastjórn aftur á refsiaðgerðir sem aflétt hafði verið í tengslum við samkomulagið.
Í yfirlýsingu frá þjóðaröryggisráði Írans vegna ákvörðunar Bandaríkjastjórnar kom fram að hún gæti ógnað friði og stöðugleika í Miðausturlöndum og á heimsvísu. Írönsk stjórnvöld teldu Bandaríkjastjórn á móti stuðningsmenn hryðjuverka.
Trump-stjórnin setur íranska byltingarvörðinn á hryðjuverkalista
Kjartan Kjartansson skrifar

Mest lesið

Kjarasamningur kennara í höfn
Innlent

Engin röð á Læknavaktinni
Innlent





Reykjavík ekki ljót borg
Innlent


