Enski boltinn

Jürgen Klopp vildi ekki mæta Porto í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp í leik á móti Porto í Meistaradeildinni í fyrra.
Jürgen Klopp í leik á móti Porto í Meistaradeildinni í fyrra. Getty/Simon Stacpoole
Liverpool spilar í kvöld fyrri leik sinn í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Mótherjinn er Porto, óskamótherji fyrir marga í átta liða úrslitunum en þó ekki fyrir knattspyrnustjóra Liverpool.

Liverpool sló Porto út úr Meistaradeildinni í fyrra, 5-0 samanlagt, en öll mörk Liverpool komu þá í fyrri leiknum út í Portúgal. Liðin mætast á Anfield í kvöld.

„Okkur líður mjög vel þessa stundina. Okkur finnst leikmennirnir okkar vera frábærir og við erum sjóðheitir,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, á blaðamannafundi fyrir leikinn í kvöld.

Liverpool liðið komst aftur í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar með 3-1 sigri á Southampton á föstudagskvöldið.

Leikur Liverpool og Porto hefst klukkan 19.00 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.





Klopp hefur þegar farið með Liverpool í tvo úrslitaleiki í Evrópu og liðið fór alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð.

Þýski stjórinn vonast til að skrifa eitthvað í sögubækur Liverpool á þessu tímabili og er sáttur með þróunina á liðinu á síðustu misserum.

„Við höfum reynt að bæta okkur í hverju skrefi á síðustu árum. Strákarnir í liðinu hafa vaxið við hverja áskorun. Evrópudeildarævintýrið var frábært þar til í Basel og Meistaradeildarævintýrið var stókostlegt þar til í Kiev. Það eru miklu fleiri jákvæðar minningar en neikvæðar frá þessum keppnum,“ sagði Klopp.

„Þetta þýðir ekkert fyrir kvöldið nema að við höfum meiri reynslu. Við höfum ekki klárað tímabilið og þurftum að gera það af sama krafti,“ sagði Klopp.

Porto var óskamótherji í átta liða úrslitunum að mati flestra sem þótti Liverpool heldur betur hafa heppnina með sér í drættinum.

„Fólk segir svo margt. Allir vilja fá Porto þangað til að þeir þurfa að spila við Porto. Við vildum ekki fá Porto ef ég er alveg hreinskilinn,“ sagði Klopp.

„Fólk sem þekkir fótboltann sem Porto spilar vildi ekki fá Porto. Enginn vildi örugglega ekki mæta Liverpool heldur,“ sagði Klopp brosandi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×