Körfubolti

Carter orðinn fimmti leikjahæstur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir að vera kominn á fimmtugsaldurinn er Carter enn að.
Þrátt fyrir að vera kominn á fimmtugsaldurinn er Carter enn að. vísir/getty
Vince Carter er kominn upp í 5. sætið á listanum yfir leikjahæstu leikmenn NBA-deildarinnar í körfubolta.

Carter lék sinn 1477. leik í NBA þegar Atlanta Hawks vann dramatískan sigur á Milwaukee Bucks, 136-135, eftir framlengingu í gær. Trae Young skoraði sigurkörfu Atlanta á lokaandartökum framlengingarinnar. Carter lék í 19 mínútur í leiknum í gær og skoraði níu stig.

Carter varð 42 ára í janúar. Hann er á sínu 21. tímabili í NBA en hann var valinn númer fimm í nýliðavalinu 1998.

Robert Parish er leikjahæstur í sögu NBA með 1611 leiki. Kareem Abdul-Jabbar kemur næstur með 1560 leiki. Dirk Nowitzki, sem er enn að, er í 3. sæti leikjalistans með 1515 leiki og John Stockton er fjórði með 1504 leiki.

Auk þess að vera fimmti leikjahæstur í sögu NBA er Carter númer 20 á listanum yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar frá upphafi.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×