Starfsmenn tuga hótela og rútubílstjórar sem eru félagsmenn í Eflingu og VR lögðu niður störf á miðnætti. Verkfallið á að standa í sólahring og er sagt ná til rúmlega tvö þúsund félagsmanna.
Á vefsíðu Eflingar er verkfallið sagt ná til rúmlega fjörutíu hótela á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði. Félagsmenn VR sem leggja niður störf eru á tuttugu hótelum, sumum þeirra sömu og verkfall Eflingarfólks nær til.
Fundað var í kjaradeilu sex verkalýðsfélaga við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara í dag og fram á kvöld. Fundi var slitið klukkan hálf átta en áður hafði Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari, sagt afar ólíklegt að samningur næðust í kvöld og að ekki hafi komið til tals að fresta verkfallsaðgerðunum.
Fjölmiðlabann var sett á í deildunni hjá ríkissáttasemjara og frekari fregnir af gangi viðræðnanna hafa því ekki borist.
VR og Efling slitu viðræðum sínum við SA í febrúar og hófu undirbúning verkfallsaðgerða.
