Erlent

Kínverjar bjóða Venesúela hjálp við að koma rafmagni aftur á

Kjartan Kjartansson skrifar
Rafmagnslaust hefur verið í sumum hlutum Venesúela frá því á fimmtudag.
Rafmagnslaust hefur verið í sumum hlutum Venesúela frá því á fimmtudag. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Kína hafa boðið ríkisstjórn Nicolás Maduro, forseta Venesúela, aðstoð við að koma rafmagni aftur á í landinu. Maduro hefur sakað Bandaríkjastjórn um „tölvuskemmdarverk“ sem hafi valdi mesta rafmagnsleysi í sögu Venesúela.

Rafmagnslaust hefur verið í stórum hluta Venesúela, þar á meðal höfuðborginni Caracas, frá því á fimmtudag. Það hefur komið niður á sjúkrahúsum sem eiga erfitt með að knýja búnað sinn og matvæli hafa rotnað. Þá hefur útflutningur á olíu stöðvast.

Lu Kang, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, lýsir yfir áhyggjum af því að rafmagnsleysið sé vegna meintrar tölvuárásar. Kínversk stjórnvöld væru reiðubúin að veita aðstoða og tæknilega ráðgjöf til að koma rafmagninu aftur á, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Rafmagni var komið á marga hluta landsins í gær en ljósin eru enn slökkt í sumum hverfum höfuðborgarinnar og vesturhluta landsins nærri landamærunum að Kólumbíu.

Sérfræðingar sem Reuters hefur rætt við telja líklegast að rafmagnsleysið megi rekja til tæknilegra vandamála í flutningslínum frá Guri-vatnsaflsvirkjuninni í suðausturhluta Venesúela inn á raforkukerfi landsins. Venesúelsk stjórnvöld hafa látið raforkuinnviði drabbast niður undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×