Enski boltinn

Sterk Southampton áhrif í tveimur flottum útisigrum í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar

Sadio Mane fagnar öðru af mörkum sínum í gær.
Sadio Mane fagnar öðru af mörkum sínum í gær. Getty/Chris Brunskill
Southampton er ekki beint lið sem þú tengir við Meistaradeildina enda lið sem er að berjast fyrir lífi sínu í ensku úrvalsdeildinni þessa dagana.

Menn eru samt að tala um Southampton eftir sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar. Ástæðan er frábær frammistaða leikmanna sem voru einu sinni í herbúðum enska félagsins.

Tveir af athyglisverðustu sigrum sextán liða úrslitanna voru 4-1 sigur Ajax á Real Madrid á Santiago Bernabéu í Madrid og 3-1 sigur Liverpool á Bayern München á Allianz Arena í München.

Í báðum þessum leikjum voru fyrrum leikmenn Southampton liðsins í aðalhlutverki.





Serbinn Dusan Tadic lék í fjögur ár með Southampton frá 2014 til 2018. Hollenska félagið Ajax keypti hann frá Southampton í júní síðastliðnum.

Tadic átti stórkostlegan leik á Bernabéu þar sem Ajax kom flestum á óvart með sannfærandi sigri á þreföldum Evrópumeisturum. Tadic skoraði eitt mark sjálfur og átti einnig tvær stoðsendingar.

Fyrrum leikmenn Southampton voru líka í aðalhlutverki í 3-1 sigri Liverpool á Bayern München í gærkvöldi. Þar voru á ferðinni þeir Virgil van Dijk og Sadio Mané.

Sadio Mané skoraði tvö mörk í leiknum þar af það fyrra eftir stoðsendingu frá Virgil van Dijk. Van Dijk skoraði síðan mjög mikilvægt mark sjálfur þegar hann kom Liverpool í 2-1 í seinni hálfleiknum.

Liverpool keypti Sadio Mané frá Southampton í júní 2016 en Senegalinn hafði leikið með Southampton í tvö tímabil.

Liverpool keypti Virgil van Dijk í janúar 2018 en miðvörðurinn öflugi spilaði með Southampton frá 2015 til 2017.

Kaupin á Sadio Mané og Virgil van Dijk eru bæði í hópi þeirra bestu hjá félaginu undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×