María Björg Ágústsdóttir hefur hafið störf hjá Íslandssjóðum þar sem hún stýrir viðskiptaþróun félagsins. Greint er frá ráðningu hennar í tilkynningu frá Íslandsbanka þar sem jafnframt segir að María sinni einnig starfi fjármálastjóra 105 Miðborgar slhf. Þá gegnir hún jafnframt hlutverki framkvæmdastjóra fasteignafélagsins FAST-1.
Í tilkynningu er reynsla María reifuð, en hún er sögð hafa starfað í rúman áratug í fjármálageiranum. Til að mynda hafi hún starfað í fjárstýringu Glitnis banka og síðar hjá þrotabúi Glitnis sem forstöðumaður upplýsingamála og reksturs. Þá sat María í stjórn ISB Holding árin 2009-2016.
Hún lauk lauk meistaranámi við University of Oxford árið 2007 í stjórnunarfræðum og BA-gráðu í hagfræði frá Harvard University árið 2006. María hefur lokið námi í verðbréfamiðlun og einnig CAIA®-prófi, sem lýst er sem alþjóðlegri prófgráðu í sérhæfðum fjárfestingum.
Þá er þess einnig getið að María á að baki glæstan feril sem landsliðsmarkvörður í knattspyrnu. Hér á landi spilaði hún með Stjörnunni, KR og Val áður en hún hélt út í atvinnumennsku hjá Örebro í Svíþjóð.
Íslandssjóðir eru dótturfélag Íslandsbanka og stýra eignum sem nema um 266 milljörðum króna. Rúmlega 10.000 sparifjáreigendur og fjárfestar eru auk þess sagðir ávaxta eignir sínar í sjóðum félagsins. Fyrrnefnd Miðborg slhf. reisir nú íbúðir og skrifstofuhúsnæði á Kirkjusandsreit og FAST-1 lauk nýverið sölu á ríflega 22 milljarða króna fasteignasafni sínu.
