Erlent

Trump heldur að Kim valdi sér ekki vonbrigðum

Gunnar Reynir Valþórsson og Kjartan Kjartansson skrifa
Trump ræddi við fréttamenn í Hvíta húsinu í gær.
Trump ræddi við fréttamenn í Hvíta húsinu í gær. Vísir/EPA
Donald Trump forseti Bandaríkjanna segist verða fyrir vonbrigðum komi það í ljós að Norður-Kóreumenn séu í óða önn við að endurbyggja eldflaugastöð sína í Sohae í stað þess að taka hana í sundur, eins og nýjar gervitunglamyndir virðast gefa til kynna.

Norður-Kóreumenn voru byrjaðir að taka stöðina niður, sem þótti til marks um að þær væru viljugir til að gefa eftir í vígbúnaðarkapphlaupi sínu. Eftir að leiðtogafundur þeirra Trump og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, rann hálfpartinn út í sandinn í síðustu viku virðist sem þeir hafi hafið endurbyggingu stöðvarinnar.

Trump hitti fréttamenn í Hvíta húsinu í nótt þar sem lét hafa eftir sér að enn væri of snemmt að slá nokkru föstu um málið, en að ef rétt reynist, og Norður Kóreumenn séu að byggja stöðina upp aftur, þá verði hann fyrir miklum vonbrigðum. Hann bætti því þó við að hann hafi ekki trú á því að Norður-Kóreumenn standi í slíku, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

„Þetta er skýrsla á frumstigum. Ég væri mjög, mjög vonsvikinn með Kim formann, og ég held að ég verði það ekki, en við sjáum hvað setur. Við kíkjum á þetta. Þetta verður leyst á endanum,“ sagði Trump við fréttamennina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×